Viltu vera sjálfboðaliði á Landsmóti?

Komdu á Landsmót hestamanna 2024 og taktu virkan þátt í ævintýrinu!

Við hjá Landsmóti leitum að sjálfboðaliðum til að vinna á Landsmóti í Reykjavík dagana 1.-7. júlí! Landsmót hestamanna hafa í áranna rás verið borin uppi af óeigingjörnu framlagi sjálfboðaliða úr hestamannafélögum landsins. Sami eldmóður og hugsjón einkenna starfið í dag og í upphafi og margir sjálfboðaliðar gefa vinnu sína ár eftir ár. Gífurlegur undirbúningur liggur að baki þess að skipuleggja Landsmót og til að mæta kröfum nútímans um aðbúnað og skipulag þarf að geta þjónustað allt að 10.000 gesti. Þitt framlag er því gríðarlega mikilvægt og skiptir höfuðmáli til að gera umgjörð mótsins sem glæsilegasta.

Hvað fá sjálfboðaliðar?

  • Aðgang að Landsmóti alla vikuna
  • Fæði meðan á vöktum stendur
  • Varning merktan Landsmóti
  • Aðgang að sérstöku tjaldsvæði starfsmanna

Hefur þú áhuga á að starfa á Landsmóti? Hafðu samband: landsmot@fakur.is

 


Athugasemdir