Hvað er Gæðingakeppni?
Gæðingakeppnin er algengasta keppnisform í hestamennsku á Íslandi.
Fyrir því eru ýmsar ástæður. Sú keppni fylgir hefðum sem fylgt hafa íslenska hestinum í gegnum tíðina auk þess sem Gæðingakeppni kallar betur en aðrar keppnir fram þau séreinkenni sem íslenski hesturinn býr yfir. Eiginleikar eins og vilji , geðslag, fegurð í reið og krafturinn sem býr í hestinum samhliða hinu frjálsa og einfalda keppnisformi gerir knöpum kleift að nálgast hestinn á jákvæðan máta og þannig kalla fram bestu eiginleika hestsins.
Keppt er í mismunandi aldursflokkum: barna, unglinga, ungmenna og fullorðinna.
Barnaflokkur 10-13 ára:
Í barnaflokki eru riðnir tveir hringir á hringlaga keppnisvelli. Knapar þurfa að sýna fet á einni langhlið, brokk eða tölt á einni langhlið og stökk á einni langhlið. Þá hafa keppendur eina langhlið eftir til vara sem þeir geta notað til að leiðrétta ef eitthvað hefur misfarist eða ef knapinn ákveður að reyna að bæta einkunn í einhverri gangtegund sem hann hefur þegar sýnt. Einkunnir eru gefnar fyrir gangtegundirnar sem og fyrir ásetu og stjórnun. Gangtegundir hafa 50% vægi á móti 50% vægi fyrir ásetu og stjórnun. Með þessu móti er börnum gefin kostur á að ná góðum árangri með góðri reiðmennsku og ekki sjálfgefið að sá knapi sem er með besta hestinn vinni endilega mótið. Knapi sem hefur góða ásetu og stjórnun og sýnir góða reiðmennsku getur allt eins staðið uppi sem sigurvegari. Þannig er ungum knöpum veitt hvatning til að stefna að góðri ásetu og stjórnun á sínum hesti sem síðan fylgir þeim áfram í eldri flokka.
Unglingar 14-17 ára:
Keppni í unglingaflokki er ögn meira krefjandi. Riðnir eru þrír hringir á hringlaga keppnisvelli (sama og í B flokki). Knapar sýna fet á ¾ af einni langhlið og síðan að minnsta kosti eina langhlið af eftirfarandi gangtegundum:
Þá hafa knapar eina langhlið til að leiðrétta mistök eða til að reyna að bæta einkun í einhverri gangtegund og þar með hækka lokaeinkunina sína. Allar gangtegundir hafa jafnt vægi og einkunnir eru einnig gefnar fyrir ásetu og stjórnun og vega þær einkunnir 1/6 af lokaeinkun. Eins og sjá má er lögð rík áhersla á ásetu og stjórnun í yngri flokkum sem miðar að því að yngri keppendur komi betur undirbúnir í eldri flokkana.
Ungmenni 18-21 árs.
Í flokki ungmenna er riðið sama prógram og í B flokki (sjá að neðanverðu). Eini munurinn er sá að í flokki ungmenna hafa, vilji, geðslag og fegurð í reið jafnt vægi en í B flokki fullorðinna er tvöfallt vægi fyrir vilja og fegurð í reið.
B-Flokkur Gæðinga (fjórgangur)
Í þessum flokki eru riðnir 3 hringir. Feta þarf að minnsta kosti ¾ af langhlið, brokk, hægt tölt, greitt tölt og stökk skal sýna á einni langhlið hverja gangtegund og síðan er ein langhlið sem knapar hafa frjálst val með hvað þeir kjósa að sýna til að fá fullnaðareinkun. Fegurð í reið og vilji hefur tvöfalt vægi í einkunagjöfinni.
A-Flokkur Gæðinga (fimmgangur)
Í þessum flokki bætist við skeið og er það sýnt á 175 m langri beinni braut. Hestur skal skeiða 100m á merktri braut sem telur jafnt og ein langhlið (1/2 hringur) á hringvelli. Heildarfjöldi umferða er samt sem áður þrjár, sem sagt 2.5 hringir að viðbættu skeiði á beinni braut.
Í A-flokki eru ekki gerðar kröfur um hægt tölt en hraði á tölti er gefin frjáls. Einkunir fyrir tölt, skeið, vilja, geðslag og fegurð í reið hafa tvöfallt vægi og eru þ.a.l. margfaldaðar með 2.
Í öllum flokkum mega knapar snúa við einu sinni, ef þeir vilja.
Keppnin byrjar og endar á einni skammhlið hringvallarins, fyrir utan A-flokkinn. Ef að knapar enda sýninguna á skeiði á beinni braut þurfa þeir ekki að ríða aftur inn á hringvöllin til að ljúka sinni sýningu. Eftir að sýning er hafin á annari skammhlið hringvallarins mega knapar sýna skeið hvenær sem er í sinni sýningu.
Gæðingakeppni vs. Íþróttakeppni
Þegar bornar eru saman gæðingakeppni og Íþróttakeppni má sjá að í Íþróttakeppni er lögð meiri áhersla á knapann, hans reiðmennsku, takt, hraða og form.
Í gæðingakeppni hinsvegar er hesturinn í lykilhlutverki, keppnisformið er mun frjálsara og opnara og hentar flestum hestum. Það eru minni kröfur gerðar á nákvæmni og eru sýningar byggðar upp á vilja, krafti og rými gangtegunda.
Knapar þurfa einungis að sýna eina langhlið af hverri gangtegund til þess að fá einkun, þeir mega snúa við einu sinni ef þeir vilja og mega jafnframt sýna gangtegundirnar í hvaða röð sem þeim hentar til þess að fá sem besta lokaeinkun. Til dæmis gæti knapinn ákveðið að hefja sýninguna á kraftmiklu stökki og skipt síðan yfir í kraftmikið brokk eða tölt. Knapar hafa algerlega frjálsar hendur og geta sniðið sína sýningu að eigin þörfum og hæfileikum síns hests.
Í öllum flokkum gæðingakeppninar eru knöpum gefnar frjálsar hendurm með hvernig þeir setja upp sína sýninug og mega þeir sýna gangtegundirnar í hvað röð sem hentar þeim og þeirra hestum best.
Gæðingakeppni er fyrir alla þá sem hafa áhuga á að keppa og sýna bestu eiginleika síns hests, frá barnaflokki og upp í fullorðinsflokka þar sem aldursskiptingu lýkur.
Nálgunin við hestinn byggir á hinni upprunalegu ímynd íslenska hestsins þar sem andinn er frjáls og geðslagið kemur í ljós. Það er hinn sanni íslenski hestur, gæðingurinn.
¾